Gönguleiðir

Seyðisfjörður

Fossastígur

Fjarðará og Fjarðarselsvirkjun/safn

2,5 og 4 klst. / 6 – 10 km.

Aðgengilegt frá júní til september

Ánægjuleg, auðveld ganga frá hjarta bæjarins meðfram ánni inn að Fjarðarselsvirkjun. Gönguleiðin liggur að hluta til meðfram Fjarðará, inn á lítið skógræktarsvæði, neðan við klettabeltið sunnan við ánna. Fjölskrúðugur gróður, lækir, fossar og fögur fjallasýn prýðir þessa gönguleið. Heimsókn í elstu starfandi riðstraumsvirkjun landsins; Fjarðarsel (1913) getur verið hluti af göngunni, en þá þarf að hafa samband við Upplýsingamiðstöðina í síma 472 1551 til þess að fá hana opnaða. Berjaland er mikið inn við Fjarðarsel, týna má þar aðalbláber, bláber og krækiber seinnihluta ágúst.

Fyrir þá sem vilja sjá meira af fossum Fjarðarár er mælt með að gengið verði áfram frá Fjarðarseli eftir stikuðu leiðinni sem liggur meðfram ánni sunnanmegin. Leiðin er liggur upp að minnisvarða í Neðri Staf, hækkunin er um 300 metrar. Fögur fjallasýn, fossar, gróður og saga er skemmtileg blanda sem gerir þessa gönguferð ógleymanlega.

Fjallkonustígur

Vestdalur og Vestdalseyri

3,5 klst / 6 km

Aðgengilegt frá júní – septembers. Gönguferð um Vestdal, að Vestdalsvatni og að skúta „Fjallkonunnar“. Vestdalur og Vestdalseyri eru á náttúruminjaskrá fyrir sérstæðan gróður og menningarminjar. Hluti leiðarinnar er gömul póst- og verslunarleið, ein sú fjölfarnasta á Austurlandi á árunum 1880-1910 og víða má sjá fallegar gamlar veghleðslur og vörður. Í Vestdal fundust bein og nælur frá Víkingaöld og mikið perlusafn árið 2004. Við rannsókn kom í ljós að beinin og perlurnar tilheyrðu þrjátíu ára gamalli konu frá því um 940. Gönguleiðir upp að Vestdalsvatni, að skúta „Fjallkonunnar“, inn Stafdal, upp á Bjólf, yfir í Loðmundarfjörð eða yfir á Hérað liggja um dalinn. Sumar leiðanna eru stikaðar aðrar eru merktar inn á kortið „Gönguleiðir á Víknaslóðum“ sem fæst í upplýsingamiðstöðvum.

Brimnes

10 km akstur frá miðbæ Seyðisfjarðar út að bóndabænum Selsstöðum

Þaðan er gengið 5,5 km eftir gömlum jeppaslóða.

Brimnes er út í fjarðarmynni á norðurströnd Seyðisfjarðar. Á öldum áður var það ein öflugasta útgerð sem fyrirfannst á austfjörðum. Tóftir gamalla bygginga má sjá þar í fallegu umhverfi og er þar einnig viti.

Austdalur – Skálanes – Dalatangi

Vegalengd: 1,5 klst, 4,5 km

Létt og skemmtileg ganga á láglendi frá bílastæði við Austdalsá að Skálanesi. Ganga má svo áfram að náttúruperlunni Skálanesbjargi. Mikið fuglalíf er á Skálanesi m.a. æðavarp. Sýnið aðgát og fylgið merktum stígum. Jeppaslóð er úr Austdal að Skálanesi.

Skálanes – Dalatangi (Skollaskarð)

Vegalengd:  3-4 klst, 8,5 km

Brött leið er frá Skálanesi upp með bjargbrúninni í Skollaskarð (600m), einnig er bratt fyrsta spölinn úr skarðinu niður í Afréttardal. Leiðin liggur yfir Dalaafrétt um Hallandann að Dalatanga. Varast skal þessa göngu í þoku.

Seyðisfjörður- Mjóifjörður

Austdalur – Brekka í Mjóafirði

Vegalengd: 6 – 7 klst, 12 km.

Gengið er frá bílastæði við Austdalsá, upp fyrir eyðibýlið Austdal. Vegslóða fylgt fyrsta spölinn inn Austdalinn, raflínu er fylgt að mestu upp á brún (781 m) Gestabók er við efsta ragmagnsstaurinn. Áríðandi er að fylgja stikunum niður í Brekkugjá og fara varlega yfir fönn ofan hennar. Farið er niður Brekkudalinn að Brekku.

Seyðisfjörður – Loðmundarfjörður (Hjálmárdalsheiði)

Selstaðir – Loðmundarfjörður

Vegalengd: 5-6 klst, 12km

Gangan hefst skammt frá eyðibýlinu Kolsstöðum um Hjálmárdalsheiði (556m) sem áður var aðal leiðin milli fjarðanna. Bratt er upp á brún heiðarinnar einkum efstu brekkurnar. Vaða eða stikla þarf tvær óbrúaðar ár, Kolsstaðaá og Hjálmá ofarlega í Hjálmárdal, en brú er á Fjarðará í Loðmundarfirði, innan við Sævarenda. Víða eru vörður á leiðinni og gestabók er í einni þeirra á háheiðinni. Á Sævarenda er æðavarp. Sýnið því tillitssemi og fylgið merkta stígnum.

Fjallið Bjólfur og snjóflóðavarnargarðar Seyðisfjarðar

Vegur opinn frá júní – september

Ekið er eftir sumarvegi frá Fjarðarheiði sem er opinn frá júní fram á haust. Ekið er upp að snjóflóðavarnargörðum sem eru staðsettir í rúmlega 600 metra hæð yfir sjávarmáli. Stórfengleg mannvirki að skoða og rosalegt útsýni yfir Seyðisfjörð og bæinn. Hægt er að aka þangað á rútu og á flestum venjulegum bílum yfir sumarið.  Einstök upplifun fyrir þá sem ekki geta gengið á fjöll. Það tekur um 20 mínútur að aka frá afleggjaranum á Fjarðarheiði upp að snjóflóðavarnargörðum.

Austurlands Hálendið

Herðubreiðarlindir

Flatlent og greiðfært er norðaustan Herðubreiðar en varast ber að vanmeta fjarlægðir og villugjarnt getur verið í hrauninu. Um margar gönguleiðir er að velja í Herðubreiðarlindum, svo sem umhverfis Herðurbreiðarvötn, niður með Lindaá, inn að ármótum Jökulsár og Kreppu, auk fræðslustígs inn í hraunið. Upplýsingar gefa landverðir svæðisins.

Stuttar gönguleiðir eru í nágrenni lindanna og nokkrar lengri leiðir einnnig.Fyrst má nefna gönguleið að rótum Herðubreiðar. Gangan tekur um 2 tíma fram og til baka. Einnig er gönguleiðin að uppgöngustað á Herðubreið stikuð úr Lindum norður og síðan vestur með fjallsrótum (þrír tímar hvora leið). Leiðin upp á fjallið er óstikuð. Ef gengið er á Herðubreið, sem tekur um 12 tíma úr Lindum fram og til baka, er nauðsynlegt að leggja snemma af stað, sérstaklega þegar dagsljósið minnkar í ágúst. Fjallgangan tekur um þrjá tíma. Lagt er upp frá enda vegarins vestan fjallsins en þangað má aka og tekur aksturinn um tvo tíma úr Lindum. Ekið er áleiðis að Dyngjufjöllum og með rótum Herðubreiðartagla þvert um skarðið milli þeirra og Herðubreiðar. Gengið er eftir slakka sem nær upp í gegnum hamrabeltið efst í fjallinu. Varist að fara annars staðar á fjallið. Uppgangan er oft torveld vegna snjóa og íss framan af sumri. Einnig má alltaf búast við grjóthruni og því er heppilegt að ganga ekki mjög þétt saman. Gerið ferðaáætlun, aflið upplýsinga hjá landvörðum og látið þá vita um fyrirætlanir ykkar.

Ef ganga á að Bræðrafelli við Kollóttudyngju er gengið frá uppgöngustað á Herðubreið, um Flötudyngju að skála Ferðafélags Akureyrar sem stendur austan við Bræðrafell. Leiðin er stikuð og tekur gangan 7-9 klst. úr Herðubreiðarlindum.

Í Ódáðahrauni er lítið um vatn en stundum má finna snjó ofan til í fjöllum fram eftir sumri. Göngufólk verður því að bera með sér vatn.

Hvannalindir

Hvannalindir – Kreppuhryggur – Kreppuþröng
Frá Kverkfjallaslóð í Hvannalindum liggur afleggjari suðaustur á bílastæði við norðurendann á Kreppuhrygg. Stutt ganga er upp á hrygginn þaðan sem er frábært útsýni yfir Hvannalindir og suðaustur yfir Lindahraun til Kverkfjalla. Stutt er þaðan austur að Kreppuþröngum þar sem Kreppa byltist í örþröngri rás.

Hvannalindir – bæjarrústir – Lindakeilir
Smá spölur er frá bílastæði við endann á Kreppuhrygg að norðurjaðri Lindahrauns. Þar austan við Lindaá eru í hraunbrúninni rústir útilegumannabæjar. Um 2.km gönguleið er frá rústunum vestur með hraunjaðrinum, yfir melöldu og Lindakvísl að Lindakeili, sem er stakur strýtulaga móbergshóll rétt við akleiðina suðvestast á lindasvæðinu.

Hvannalindir – Lindaá – Krikatjörn
Lengri gönguleið má velja frá bæjarrústunum í Hvannalindum meðfram Lindaá eftir jaðri Lindahrauns suður gegnt Krikatjörn eða að Sjónarhæð þar sem komið er á akslóðina að Hveragili.

Lindafjöll – Rifnihnjúkur – Upptyppingar
Akslóðin frá Sigurðarskála að brú á Jökulsá á Fjöllum sunnan Upptyppinga liggur um Krepputunguhraun vestan undir Lindafjöllum og norðaustan við Rifnahnjúk (780 m) og Rifnahnjúksöldur. Rifnihnjúkur er um 100 m hátt móbergsfell úr bólstrabergi en með túffhettu á kolli, sundurskorið af sprungum og misgengjum.

Kverkfjöll

Ástæða er til að vara ferðamenn við snöggum veðrabrigðum við Kverkfjöll og í grennd, þar sem þoka, stórviðri og sandbylir geta skollið án fyrirvara. Góður búnaður er því nauðsynlegur og ítrasta varúð á leið að íshelli og á jökul vegna hruns, jökulsprungna og dimmviðris. Brýnt er að hafa öll nauðsynleg hjálpartæki með á jökul, svo sem áttavita eða GPS-tæki, línur, brodda og sólgleraugu.

Sigurðarskáli – Íshellir
Um þrír kílómetrar eru að sporði Kverkjökuls, eftir gönguleið yfir jökulruðning eða eftir bílaslóð inn á jökulurðina skammt frá íshellinum. Gæta þarf ítrustu varúðar vegna hruns við jökuljaðarinn.

Virkisfell – Biskupsfell
Gengið er inn og upp frá Sigurðarskála úr suðri á Virkisfell (1108 m). Biskupsfell (1240 m) er hálfum öðrum kílómetra austar, einnig auðvelt uppgöngu sunnan frá. Þaðan blasir við Tvíhyrna (1240 m).

Sigurðarskáli – Kverkfjallarani – Hveragil
Frá Sigurðarskála er gengið milli fella og hnjúka til austurs yfir eldgjár og hrauntauma, um 12 km leið. Í Hveragili eru volgrur á nokkrum stöðum, allt að 62 gráðu heitar. Þaðan inn að Þorbergsvatni við jaðar Brúarjökuls eru um 8 km.
Auk gönguleiðarinnar liggur jeppaslóð af Kverkfjallavegi innan við Hvannalindir um 38 km leið að Hveragili vestur af Vatnahrygg. Liggur hún um melöldur, fram hjá tjörnum og yfir fimm hrauntauma.

Gönguferð á Kverkfjöll vestari
Frá Sigurðarskála er haldið að Kverkjökli norðan við íshellinn og gengið sniðhallt upp og suður yfir jökulinn fram hjá sprungusvæðum að jaðarurðum í um 1260 m hæð. Þaðan er gengið beint upp brekkuna á milli skerja þar til um 1750 m hæð er náð. Er þá gengið í vesturátt og hæð haldið þar til komið er að neðri Hveradal.

Skarphéðinstindur – Kverk – Sigurðarskáli
Frá skála Jöklarannsóknafélagsins við Hveradal er hæg ganga suðaustur yfir öskju Kverkfjalla á Skarphéðinstind (1936 m) en þaðan er afar víðsýnt. Til baka má ganga niður vestan við Kverk. Aðgát skal sýna því þoka getur skollið yfir uppi á Kverkfjöllum án fyrirvara.

Lónsöræfi

Eskifell – Kambar – Illikambur
Fjárgötur liggja frá eyðibýlinu Eskifelli inn úr Kömbum á Illakamb fram með hrikalegu gljúfri Jökulsár. Þessi leið liggur mun lægra en ef fylgt er bílaslóðinni yfir Kjarrdalsheiði.


Múlaskáli – Kollumúlavatn – Geldingafell
Gengið með Jökulsá inn um Leiðartungur upp á Sanda að skála við Kollumúlavatn.  Áfram um Tröllakrókahnaus (809 m) norður Kollumúlahraun og um Vatnadæld að skála norðan undir Geldingafelli.  Þaðan liggur leið yfir Eyjabakkajökul til Snæfells, en einnig má ganga yfir Múlahraun að Eyjabökkum og fylgja Jökulsá niður í Fljótsdal.


Múlaskáli – Kollumúlavatn – Múladalur/Geithellnadalur
Inn Leiðartungur upp á Sanda að Kollumúlavatni.  Þaðan inn Kollumúlaheiði, yfir Víðidalsá á Norðlingavaði og fram með Hnútuvatni um Háás niður í Múladal þar sem lítill ferðamannaskóli er við Leirás.  Jeppaslóð er út dalinn röska 20 km leið til byggða.  Sami dalur heitir Geithellnadalur austan ár.


Víðidalsdrög – Sauðárvatn – Suðurdalur í Fljótshlíð
Frá Norðlingavaði á Víðidalsá er haldið inn Víðidalsdrög austan ár og fylgt gömlum vörðum yfir sýslumörk á Víðidalsvarpi.  Liggur varðaða leiðin rétt vestan Sauðárvatns og var þaðan riðið um Þorgerðarstaðadal niður í Suðurdal í Fljótsdal.  Stysta gönguleið til byggða liggur austan Sauðárvatns og út á Kiðufell (Suðurfell) og niður af fellinu utan Ófæruár og yfir Fellsá á göngubrú við bæinn Sturluflöt.


Gjögur – Meingil – Stórihaus
Stikuð leið frá Múlaskála um Gjögur að Meingili og upp með því að vestan að tveimur hengifossum.  Þaðan ofan við Stórahnaus og niður skriður utan við Stórahnausgil að skála.  Gatan um Gjögur er tæp á kafla og varhugaverð fyrir þá sem  lofthræddir eru.


Múlakollur
Á Múlakoll (901 m) er m.a. hægt að ganga frá leiðinni um Gjögur eða nær beint upp frá Múlaskála.  Lengri leið er um Leiðartungur og frá Söndum suðaustur á koll.  Frá brúnum hans litlu sunnar blasir við Sviptungnakollur, Hnappadalstindur og Grísatungnagil austan Víðidalsár.  Til baka er hægt að fara niður milli gilja.


Grund í Víðidal
Til Víðidals er farið um Leiðartungur og austur yfir Sanda.  Bæjarstæðið á Grund er í sveif  í um 400 m hæð austan Víðidalsár undir hlíðum Hofsjökuls.  Þar sér vel til rústa frá síðustu byggðinni 1883 – 1897.  Víðidalsá er óbrúuð og getur verið illvæð eða ófær en stundum má komast yfir hana á snjóbrú í árgilinu norðar.  Frá Grund er gönguleið um skarð sunnan Hofsjökuls til Hofsdals eða Flugustaðadals í Álftafirði.


Jökulsárdalur – Tröllakrókar – Vesturdalur
Skemmtileg en stíf dagsganga er inn Jökulsárdal um Stórsteina og Tröllakróka inn í Vesturdal.  Ekki skal fylgja Jökulsá milli Leiðartungna og Stórsteina vegna skriðuhafts við ána á kafla.  Komast má upp á Kollumúla innarlega um skriður innan við Tröllakróka og ganga út brúni múlans og um Leiðartungur til baka.


Sauðhamarstindur
Ganga á Sauðhamarstind (1319 m) er talsvert príl og vissara að hafa með sér brodda og ísöxi.  Ganga má um Víðibrekkusker eða eftir gili sem er aðeins sunnar en Múlaskáli.  Komast þarf um skriðu upp á hátt klettabelti og um fannir á Röðul sem myndar suðaustur öxl fjallsins og þaðan á hæsta tindinn. 

Skyndidalur – Keiluvellir – Hoffellsdalur
Frá Jökulsársandi er þægileg ganga inn norðanverðan Skyndidal að Keiluvöllum.  Þar innan við fellur Lambatungnaá allströng í Skyndidalsá.  Ganga má yfir Lambatungnajökul eða vaða Skyndidalsá og halda upp Nautastíg og um varp suður í Hoffelsdal.

 Snæfellsöræfi

Gönguleiðir eru margar og fjölbreyttar á Snæfellssvæðinu. Göngur við allra hæfi, bæði styttri og lengri göngur.  Hægt er að sækja kort hér.

S1. Snæfellsskáli-Laugarfell (28-30 km)
Gengið er suður frá Snæfellsskála um Þjófadali og hestagötum fylgt að Hálskofa. Þaðan er reiðleiðinni fylgt áfram um Snæfellsnes og Hafursárufs, yfir Hafursá og áfram norður á bóginn uns komið er að heitu lauginni og Laugarkofa, neðan Laugarfells. Þetta er góð dagleið.

S2. Snæfell-Þjófadalir (8-9km)
Lagt er upp frá Snæfellsskála eða ekið suður að Langahnjúk og gengið upp með Þjófadalsánni um Þjófadali milli Snæfells og Þjófahnjúka. Gengið er austur dalinn og út á bakkana, þar er mjög gott útsýni yfir Eyjabakka og Þóriseyjar.

S3. Snæfellshringurinn (28-30km)
Lagt upp frá Snæfellsskála og gengið um Þjófadali milli Þjófahnjúka og Snæfells. Þaðan er gott útsýni yfir Eyjabakka. Úr Þjófadölum er gengið út með Snæfellshálsi,ofan við Þjófagilsá, að Hálskofa. Er gengið sem leið liggur neðst í hlíðum Snæfells út undir Hafursá. Þaðan er stutt niður að Eyjabakkavaði, þar sem sumir enda gönguna (18-19km). Ef stefnan er tekin á hringinn, þá er haldið upp með Hafursá um Vatnsdal og áfram inn með kollinum sem kallaður er Tíutíu (1010m). Þaðan liggur leiðin samhliða veginum að Snæfellsskála. Þetta er góð dagleið.

S4. Snæfell (12-14km)
Nokkrar uppgönguleiðir eru færar á Snæfell. Núna er algengt að fara upp á Snæfell að vestanverðu, nokkru innan við Snæfellsskála. Gönguleiðin er stikuð að hluta eða þar til jöklinum er náð. Útsýni er stórfenglegt af Snæfelli til allra átta, enda Snæfellið hæsta fjall landsins utan jökla (1833m). Göngutími er 6-9 klst, allt eftir aðstæðum á jöklinum. Ráðlegt er að hafa mannbrodda meðferðis.

S5. Snæfellsskáli – Lónsöræfi (44-46km) svart
Gönguleið sem farin er á 3-5 dögum. Í fyrsta áfanga er gengið frá Bjálfafelli yfir í Eyjabakkajökul í Geldingafell (20km). Vaða þarf nokkrar jökulsprænur á leiðinni. Úr Geldingafelli er gengið í skálann við Kollumúlavatn (15km) Þaðan er gengið um Víðidal, langan og grösugan dal í Stafafellsfjöllum, norðan Kollumúla og áfram með brúnum Tröllakróka í Múlaskála. Þaðan er örstutt yfir í Illakamb, þar sem flestir kjós að láta sækja sig. ATH. Kortið nær aðeins yfir hluta af leiðinni.

S6.Glúmsstaðasel – Eyjabakkafoss (19km) rautt
Jeppavegur er inn að Glúmsstaðaseli í Norðurdal Fljótsdals. Gengið er upp með Jökulsá austan megin, fram hjá Ófærufossi, Gjögurfossum, Faxa og Kirkjufossi, sem leið liggur að Hrakstrandarkofa og að Eyjabakkafossi.

S7. Eyjabakkafoss – Geldingafellsskáli (16km) svart
Gengið er meðfram Eyjabakkafossi og inn Eyjabakka að Eyjakofa og áfram upp með Ytri Bergkvísl uns sveigt er til suðurs að Geldingafellsskála.

S8. Kleif – Eyjabakkafoss (20km)
Margir fossar voru í Jökulsá á Fljótsdal fyrir virkjun. Skemmtileg gönguleið er upp með henni frá Kleif í Norðurdal. Gengið er um Kleifarskóg, fram hjá Gjögurfossum og Faxa og áfram upp að Kirkjufossi sem er hæsti foss í ánni. Nokkru ofar er Hraukstrandarfoss og svo Eyjabakkafoss. Þar fyrir ofan er vaðið yfir Jökulsá í Fljótsdal.

S9. Aðalból – Dragmót (13-14km)
Gengið er upp með ánni Hrafnkelu, fram hjá Faxagili að Tungusporði og áfram reiðgöturnar meðfram Glúmsstaðaá og upp Glúmsstaðadal að Kárahnjúkavegi í Dragmótum. Fornt sel var í Glúmsstaðadal og þar er volg laug sem hægt er að baða sig í.

S10. Fljótsdalur – Lónsöræfi (50km)
Liggur upp úr Þorgerðarstaðardal suður að Sauðárvatni. Frá Sauðárvatni liggur leiðin suður um Leiðaröxl og Víðidalsdrög, niður að Norðlingavaði á Víðidalsá og áfram vestan Víðidals suðurá Kollumúla og niður Leiðartungur að Norðlingavaði á Jökulsá í Lóni.

Fljótsdalshérað

 

Hjaltastaðarþinghá

Hjaltastaðarþinghá hét áður Útmannasveit. Sveitarmörkin og jafnframt sýslumörk Norður- og Suður-Múlasýslu eru frá Rauðalækjarósi við
Lagarfljót gegnt Straumi í Tungu, bugðótt lína í vesturröðul
Botnsdalsfjalls. Á Austfjarðafjallgarði eru Beinageitarfjall, Dyrfjöll,
Súlur og Sönghofsfjall trúir landamæraverðir milli Útmannasveitar og
Borgarfjarðar. Að vestan skiptir Lagarfljót löndum við Hróarstungu.
Í Hjaltastaðarþinghá er að finna margar eftirtektarverðar perlur svo
sem Kóreksstaðavígið og skessukatlana í Bjarglandsá.

 

Stapavík (N65°36.022 – W14°35.395) – létt leið.

Gengið frá Unaósi út með Selfljóti. Gengið fram hjá Eiðaveri, en þaðan
lét Margrét ríka á Eiðum róa til fiskjar um miðja 15. öld. Þar eru líka
fornar beitarhúsatættur. Upplagt að koma við á Krosshöfða þar sem
var löggilt verslunarhöfn frá 1902. Hólkurinn er við gamla spilið í
Stapavík. Gömul þjóðleið er frá Krosshöfða yfir Gönguskarð til
Njarðvíkur.

Stórurð – lengri leið.

Náttúruperla undir Dyrfjöllum, Héraðsmegin. Um tvær stikaðar leiðir
er að velja, af Vatnsskarði, yfir Geldingafjall (640 m) og inn vestan við
Súlur, eða neðan við Rjúpnafell af bílaplani á Vatnsskarðsvegi. Þegar í
Stórurð er komið er stikuð leið um Urðina “hringurinn”. Hólkurinn er
við upplýsingaskilti neðarlega í Urðinni. Tvær leiðir eru úr Stórurð á
Borgarfjörð, í Bakkagerði eða niður að Hólalandi.

Eiðaþinghá

Fyrir stofnun Egilsstaðahrepps 1947 var Eyvindará hreppamörk Eiðahrepps
og Valla. Hreppamörk við Hjaltastaðarhrepp eru frá Rauðalækjarósi við
Lagarfljót gegnt Straumi í Tungu, bugðótt lína í vesturröðul Botnsdalsfjalls.
Lagarfljótið er hreppamörk við Hróarstungu og austurmörkin á fjöllum
uppi og á vatnaskilum við Loðmundarfjörð og Seyðisfjörð.
Margar perlur er að finna í Eiðaþinghá og má nefna Eiðavatnið og
umhverfi þess sem sérlega skemmtilegt útivistarsvæði. Kort er til af
gönguleiðum í nágrenni vatnsins.

Fardagafoss – létt leið.
Hægt er að leggja upp frá Egilsstöðum, ganga yfir gömlu Eyvindarárbrúna
og fara svo inn á gamla veginn rétt utan við afleggjarann að Miðhúsum.
Gengið upp með ánni, farið upp með gljúfurbarminum norðan megin og
þegar komið er að fossinum er hægt að fara ofan í gilið og síðan má fara á bak við fossinn.  Einnig má leggja upp frá skilti sem er neðarlega í heiðinni en
þar eru bílastæði.

Vestdalsvatn  (N65°17.102 – W14°07.887) – lengri leið.
Skemmtileg gönguleið er yfir Vestdalsheiði, frá Héraði yfir í Seyðisfjörð.
Vestdalsheiði var áður fyrr fjölfarinn fjallvegur en gengið er upp með
Gilsá, yfir heiðina og niður Vestdal í Seyðisfjörð. Einnig má leggja upp frá
slysavarnarskýli á Fjarðarheiði og er þá gengið til norðurs. Þetta er góð
gönguleið um ávalar hæðir. Þegar komið er að Vestdalsvatni er um fleiri
leiðir niður að velja ef fólk vill ekki ganga sömu leið til baka. Niður
Vestdalinn í Seyðisfjörð er stikuð leið, niður Gilsárdalinn eftir greinilegri
slóð til Eiða eða fyrir vestan Bjólfinn niður í Stafdal.

VELLIR

Sveitarmörk Vallahrepps eru að norðan, Lagarfljót að Gilsárósi fyrir ofan Hallormsstað. Þaðan ræður Gilsá í Hornbrynju, en úr Hornbrynju eru mörkin um Hraungarð og Hallormsstaðaháls og eftir það Austarilækur að mörkum Vaðs og Sauðhaga, sem síðan ráða í Grímsá.  Þá ræður Grímsá að Gilsá og síðan ræður Gilsá mörkum frá Grímsá til upptaka. Frá upptökum Gilsár ráða vatnaskil um Kistufell, en þaðan Efri-Hrútá austur á Fagradal. Frá Hrútá ræður Fagradalsá að vatnaskilum og þaðan lína þvert yfir Skagafell og Svínadal á vatnaskilum í Eskihnúk. Þaðan yfir Hrævarskörð í Tungufell og um Eskifjarðarheiði í Fönn. Síðan eru mörkin fyrir vestan Hnútu á Eggjum í Jökulkinn, um Slenjufjall endilangt að Eyvindará, sem réði mörkum eftir það í Lagarfljót.

Í Eyjólfstaðaskógi eru margar fínar kortlagðar gönguleiðir. Í Hallormsstaðaskógi eru óteljandi gönguleiðir, einnig kortlagðar.  Auðvelt er að ganga frá Vallaneskirkju inn með Fljóti.

Valtýshellir  – létt leið.

Gengið er upp frá þjóðvegi austan (utan) við Gilsá, farið framhjá rústum Hátúna en það var stórbýli í árdaga Íslandsbyggðar og er sagt að þar hafi verið 18 hurðir á járnum. Sjást þar enn merki um hlaðna grjótgarða. Áfram er gengið og komið að sléttum grasvelli sem kallast Kálfavellir. Valtýshellir er lítill skúti skammt innan og norðan af Hjálpleysuvatni. Gangan er tæplega 8 km.

Höttur (Hátúnahöttur) – lengri leið.

Lagt upp frá Arnkelsgerði (65°08.96 – 14°30.98). Gengið upp með Grjótánni aðeins utan við Víðihjalla. Áfram upp Hattarhólana og síðan beygt inn og upp á Höttinn 1106 m.

Skriðdalur

Hreppamörk Valla og Skriðdals eru um Gilsá. Að austan eru hreppamörk um vatnaskil í fjallgarðinum milli Skriðdals og Reyðarfjarðar og sunnar milli Skriðdals og Breiðdals. Að sunnan eru hreppamörk á Þrívörðuhálsi á Öxi, um vatnaskil á Múla rétt sunnan Ódáðavatna um Brattháls á Geitdalsafrétti í Sauðahnjúk. Að vestan eru hreppamörk á Hornbrynju og vatnaskil á Hraungarði og síðan Hallormsstaðahálsi um Skarhrygg, síðan bein lína austur í Grímsá u.þ.b. á milli bæjanna Vaðs og Sauðhaga.

Fjölmargar skemmtilegar gönguleiðir eru í Skriðdalnum. Það er til dæmis mjög gaman að ganga yfir Hálsamót frá Hátúnum yfir að Borg. Einnig er gaman að ganga á Múlakollinn. Svo eru þar líka krefjandi fjöll eins og Skúmhöttur 1229 metrar og Hallbjarnarstaðatindur 1146 metrar.

Stuttidalur – létt leið.

Gengið frá þjóðvegi utan við Haugaána. Leiðin er stikuð. Stuttidalur liggur í austur á milli Hallbjarnarstaðatinds og Haugafjalls. Skemmtilegt er að bæta við göngu um Haugahólana.

Sandfell  – lengri leið.

Lagt upp frá veginum utan við Stóra-Sandfell. Gengin slóð í fyrstu en síðan haldið upp hrygginn norðan megin í fjallinu og áfram beint upp á topp 1157 m.

Fljótsdalur

Mörk Fljótsdals eru þessi: Að austan við Gilsá, sem rennur um Gilsárdal, austan við Víðivallaháls. Síðan liggur markalínan, sem jafnframt eru sýslumörk Norður- og Suður-Múlasýslu, áfram í suðsuðvestur um Hornbrynju, Sauðahnúk og eftir vatnaskilum við
Hamarsdal og Geithellnadal þangað sem mörk við Austur-Skaftafellssýslu taka við. Þaðan beygir markalínan til vesturs í norðausturhorn Vatnajökuls, þar sem Geldingafell stendur við jökulbrún og ráða jöklar síðan mörkum vestur til Jökulsár á Brú. Að vestan ræður
Jökulsá mörkum frá upptökum og norður á milli Kárahnúka inn og suður af Hrafnkelsdal. Mörk við Jökuldal eru víða óljós á Fljótsdalsheiði. Við Merkisgreni skammt norðvestur af Hengifossárvatni eru mörk við Fellahrepp, þau liggja þaðan austur af heiðinni í Kílkrók og fylgja síðan Hrafngerðisá niður í Lagarfljót.
Í Fljótsdal er skemmtilegt að ganga af Fljótsdalsheiði niður Tröllkonustíg
og niður að Valþjófsstað. Önnur skemmtileg ganga er inn að Strútsfossi
í Villingadal.

Hengifoss  – létt leið.
Hengifoss í Hengifossá 128 m hárog er  annar hæsti foss landsins. Hægt er að ganga
upp með ánni beggja vegna frá þjóðvegi (65°04.41 – 14°52.84). Algengast
er þó að ganga frá bílastæði innan við ána. Hækkun um 300 metrar. Á
leiðinni upp, sést eitt hæsta stuðlaberg landsins við Litlanesfoss. Hægt
er að fara upp fyrir Hengifoss og vaða ána og ganga hinu megin niður.

Snæfell  – lengri leið.
Snæfell er hæsta fjall utan jökla, 1833 m. Gengið frá bílastæði innan við
Snæfellsskála. Löng og meðalerfið en greið leið. Stikuð
gönguleið. Gönguhækkun er rúmlega 1000 m og göngulengd 7-8 km. Fjallið er
hæsti hluti lítillar megineldstöðvar.

Fellahreppur

Rangá skilur að lönd Fella- og Tungumanna. Við Merkisgreni skammt norðvestur af Hengifossárvatni eru mörk við Fljótsdal, þau liggja þaðan austur af heiðinni í Kílkrók og fylgja síðan Hrafngerðisá niður í Lagarfljót. Miðheiðarháls heitir á mörkum Fella- og Jökuldalshreppa utan frá Tröllagjótu, allt inn að Bræðrum og Lagarfljótið skilur að Fella- og
Vallahrepp.
Í Fellahreppi eru margar skemmtilegar gönguleiðir, á Ekkjufell, í
kringum Urriðavatn, Langavatn og fleiri vötn á þessu svæði.

Hrafnafell  – létt leið.
Ekið Fjallsselsveg upp á hæsta ás suðvestan við Hafrafell. Gengið frá
vegi að fjarskiptamöstrum á Hrafnafelli. Hægt er að fara niður sunnan við Grímstorfu eða ganga út fellið og koma inn fyrir neðan það á veg nærri Hafrafelli. Einnig skemmtilegt að ganga til baka inn vestan megin Hrafnafells. Hrafnafellsrétt (65°18.02-14°29.23)
er sérstæð, hlaðin grjótrétt milli kletta skammt austan vegar.

Spanarhóll (N65°15.588 – W14°41.446) – lengri leið.
Í norðurenda Fjórðungsháls, 591 m. Ekið inn Fellin að Ormarsstöðum.
Gengið upp með Ormarsstaðaánni og upp á Fjórðung á Fellaheiði, þaðan
er greið leið að Spanarhóli. Einnig er hægt að keyra upp að Sandvatni
og ganga þaðan.

Hróarstunga

Við Jökulsá á Dal eru hreppamörk Hlíðar- og Tunguhreppa frá ósum við Héraðsflóa að Grásteini innan við Jökulsárbrú. Þaðan eru hreppamörk Jökuldals og Hróarstungu um Krossvörðu á Brúarhálsi, í vörðu á utanverðum Heiðarenda, þaðan inn Miðheiði að mörkum Bótar- og Fellnaheiða á Miðheiðarhálsi vestur af Veghólum. Af Miðheiðarhálsi liggja mörkin í mitt Spanarhraun, yfir Rangána, yfir Valabjörg innarlega, þaðan í Háhöfða og í Fremstatanga í Flúðalandi. Svo skiptir Rangá löndum Fella- og Tunguhrepps að ósi milli Rangár og Skógargerðis. Þaðan ræður Lagarfljót sveitarmörkum til ósa við
Héraðsflóa. Margar stikaðar leiðir eru í nágrenni Húseyjar. Gaman er að ganga frá
Kirkjubæ í Geirastaði en fleiri skemmtilegar gönguleiðir eru á þessu
svæði með himneskri fjallasýn.

Húsey  – létt leið.
Ganga út við Héraðsflóa, gengið um sléttuna utan við Húseyjarbæinn.
Hægt er að velja um 6 km og 14 km hringleið. Mikið fuglalíf og selalátur.

Heiðarendi – stutt, en dálítið brött leið.
Endi Fljótsdalsheiðar, sem er heildarnafn á hálendinu milli Jökuldals
og Upphéraðs. Gengið upp frá stiku sem er utan við lækinn fyrir ofan
Nátthaga.

Jökuldalur

Mörk Jökuldals eru frá: Frá Dyngjujökli með Jökulsá á Fjöllum að Skarðsá, þaðan í Biskupsvörður á Biskupshálsi og austur um Grímsstaðadal í Hölknárkrók undir Súlendum, þá suður Kinnarland um Kinnarvötn í Langadalsá og með ánni til Hofsár. Austur Tunguheiði í Geldingalæk og áfram í Hellisöxl í Sandfelli, þá í Tröllkarl og um
Smjörvatnsheiði í Beinavörðu en þaðan beint í Búrfell og Illalækjarós við Jökulsá. Austan Jöklu eru mörk úr Grásteini fyrir framan trébrú þvert upp í Heiðarenda, síðan suður heiðina um vatnaskil í Tröllagjótu og þaðan fram í Vatnajökul um Miðheiðarháls, Þrælaháls og Snæfell. Margar fallegar perlur eru á Jökuldalnum t.d. er Hvannárgil í Vestari-
Fjallgarði. Einnig eru margar skemmtilegar gönguleiðir á Jökuldalsheiðinni.

Hnjúksvatn  – létt leið.
Gegnt Merki, uppi á heiðinni. Gengið upp með Hnjúksánni að Binnubúð
við Hnjúksvatn. N65 14 333, W015 15 887. Vert er að
ganga hringinn í kringum vatnið áður en haldið er til baka.

 

Eiríksstaða-Hneflar (16) – lengri leið.
Uppi á Jökuldalsheiði. Lagt af stað rétt utan við Eiríksstaði. Gengið á
Fremri-Hnefil 947 m og síðan á Ytri-Hnefilinn 922 m. Hæfilegt er að
ganga að Hneflaseli sem fór í eyði 1875 og halda síðan til baka milli
Hneflanna og niður í Jökuldal. Styttra er að ganga á Eiríksstaða-Hnefla
af Jökuldalsheiðinni frá Þverárvatni og vaða Þverá.

Jökulsárhlíð

Hlíðarhreppur afmarkaðist frá Vopnafirði að norðan frá sjó undan Kollumúla, um hábungur Hlíðarfjalla og síðan Smjörfalla, að mörkum Jökuldals að vestan á Smjörvatnsheiði. Þaðan úr Beinavörðu á miðri heiði í Laxárdalshnúk, um Laxárdal þveran í Deild og Illagilsós við
Jökulsá milli Hauksstaða og Fossvalla. Að sunnan og suðaustan er Jökulsá á Dal hin óumdeilanlega og náttúrulega markalína milli Hlíðar og Hróarstungu, en að austan og norðaustan afmarkast sveitin af Héraðsflóa og ströndum hans. Í Hlíðinni eru margar fallegar gönguleiðir, t.d. upp að Selfossi og þaðan áfram upp í Selgil. Einnig er gaman að ganga meðfram Jöklu.

Landsendi – Kverkin við Hellisheiðarveg – létt leið.
Gengið frá þjóðvegi við Biskupshól (65°42.52 – 14°24.41) út að Keri, sem
er forn verstöð og þaðan út á Landsendahorn. Hólkurinn er á bakkanum
fyrir ofan Ker.
Þerribjarg  (N65°45.336 – W14°20.990) – lengri leið.
Ekið upp á Hellisheiði og þaðan eftir vegarslóða þar til komið er efst í Kattárdalsdrög. Vegarslóðinn liggur niður í Kattárdal. Þar er skilti og er sveigt út af slóðanum og bílnum lagt. Stikað er frá skiltinu fram á brún beint ofan við Múlahöfnina. Þaðan liggur kindagata niður fyrir brúnina niður skriðuhrygg niður í Múlahöfn. Frá Múlahöfninni gengið
meðfram sjónum í norður út á ytri tangann. Þar blasir við Þerribjarg og þar undir Langisandur.

Djúpivogur

Víðidalur. Göngutími: u.þ.b. 3 dagar. Mesta hæð 740 m.

Þessi forni og afskekkti bær hefur í gegnum tíðina verið vinsæll áfangastaður göngugarpa en leiðin er nokkuð löng og gott er að reikna með þremur dögum í ferðina. Hægt er að koma við í ferðafélagsskála á leiðinni. Til þess að komast í Víðidal er mælt með að leggja upp frá Múladal í Álftafirði en leiðin frá Múladal til Víðidals hefur verið stikuð af Ferðafélagi Djúpavogs. Frá bænum Múla sem er um 20 km leið inn að svonefndum Hvannavöllum en þar var áður búið og má þar sjá tóftarbrot. Túnið þar í kring er all víðáttumikið og ber með sér að þar hefur verið talsverður búskapur. Frá Hvannavöllum eru 7 – 8 km inn í stafn ? og um 5 km að ferðamannaskála á svokölluðum Leirási. Bótarfoss innst í Múladal er fallegur en hann fellur í þröngum stokki og stuðlabergshamrar, formfagrir eru til beggja hliða. Frá fossinum er gengið ofurlítið lengra inn með ánni og síðan lagt á brattann en þar sem farið er upp úr dalnum eru hrikaleg gljúfur í ánni. Frá innstu drögum Víðidals má sjá vel til Snæfells, sem og til Vatnajökuls. Þegar haldið er áfram er um nokkrar leiðir að velja m.a. að Illakambi og niður í Lónsöræfi, einnig er hægt að fara sömu leið til baka og þá er hægt að fara niður í Hofsdal með þann möguleika að fara yfir svokallaða Buga, sem er lágur háls milli Múladals og Hofsdals eða halda áfram út Hofsdal. Ef þessi leið er valin þarf að fara yfir nokkrar ár sem þó eru yfirleitt ekki vatnsmiklar.
Búlandstindur. Göngutími: 3 – 4 klst. Mesta hæð: 1069m.

Búlandstindur þykir almennt vera eitt formfegursta fjall á Íslandi. Fjöldi fólks leggur leið sína á tindinn á hverju ári og reikna má með að þeir yrðu enn fleiri ef leiðin yrði merkt. Leiðinni á tindinn er lýst í bókinni Íslensk fjöll eftir Ara Trausta Guðmundsson. Best er að fara eftir vegarslóða sem liggur meðfram Búlandsá sunnanverðri og alveg inn að stíflu sem er innarlega á dalnum.  Hægt er að komast þessa leið á jeppa en ef gengið er eftir vegarslóðanum má reikna með um 1 klst í viðbót við áætlaðan göngutíma. Þaðan er gengið beint upp grasi grónar brekkur og skriður. Leiðin rekur sig sjálf þar til efsta tindi er náð með dálitlu klettabrölti. Hátindurinn er mjór og brattur klettarimi og þar er útsýni feyki gott. Mjög mikilvægt er að gæta þess að ganga ekki of langt til austurs ef eitthvað er að skyggni eða ef hált er, því að austurhlíð fjallsins er þverhnípt og hömrótt. Göngumenn þurfa að gæta sín á að setja á minnið leiðina upp, þar sem hægt er að villast, sérstaklega ef þoka leggst yfir. Gott er að hafa GPS tæki meðferðis og taka punkta á leiðinni. Gott GSM samband er á tindinum.
Berufjarðarskarð. Göngutími 2-3 klst. Mesta hæð: 669m.

Þessi gamla þjóðleið hefur oft verið gengin og Félag áhugafólks um forna fjallvegi á Austurlandi gaf út bækling um leiðina fyrir nokkrum árum. Þá má nefna að þær þjóðsögur sem tengjast Berufirði gera leiðina enn áhugaverðari. Gangan hefst við bæinn Berufjörð og liggur leiðin eftir melrinda nánast beint upp af bæ, á Sótabotnsbrún rétt utan við Sótabotn og áfram innan við Svartagilsstafn út og upp í skarðið. Er leiðin vörðuð frá brún Svartagils langleiðina að Póstvaði á Breiðdalsá gegnt Höskuldsstöðum.
Búlandsnes. Göngutími: 3-4 klst.

Gönguleiðin um Búlandsnes er að hluta til merkt stikum, leiðin hefur verið ein vinsælasta gönguleið í hreppnum á undanförnum árum, m.a. vegna þess hve létt hún er og einnig vegna fjölbreytts landslag við ströndina en þar má m.a. sjá marga fallega bergganga og fjölbreytilegar sendnar fjörur. Þá og er áhugavert að skoða allar úteyjarnar sem nú eru orðnar landfastar vegna mikils sandburðar á síðustu áratugum. Síðast en ekki síst er geysilega fjölskrúðugt fuglalíf á vötnunum á Búlandsnesi og má sjá greinargóðar upplýsingar um það á sérstökum skiltum.

Gott er að hefja gönguna við Hótel Framtíð eða við Grunnskólann en þaðan er c.a. 100 m að svokallaðri Bóndavörðu. Á Bóndavörðu er útsýnisskífa og þar er gott að staldra við og átta sig á umhverfinu en Búlandstindur, kauptúnið í Djúpavogi, Papey, firðirnir og fjallsýn blasir þar við. Frá Bóndavörðu er haldið í norðaustur í átt að Hvítasandi sem er hvít sandfjara yst á svokölluðum Langatanga. Áfram er haldið meðfram ströndinni, gengið yfir Grjóteyrartanga og Grunnasund. Taka þar við sandar miklir og er töluverður hluti leiðarinnar þar eftir á sandi. Út af Grunnasundsey er stærsta eyjan Úlfsey og austan við Úlfsey tekur við Hvaleyjarsund sandborið og handan við það Hvaley. Ysta eyjan er Kálkur og suðvestur af honum standa stapar upp úr sandi, nefndir Stólpar og voru áður í sjó; milli þeirra og Sandeyjar heitir Stólpasund. Í Sandey er hellir sem hægt er að komast í á fjöru en hann fyllist af sjó á flóði, fara skal með gát við hellinn en aðgengi í hann getur verið varasamt.

Skammt frá flugbrautinni við vötnin er tilvalið að staldra við í fuglaskoðunarskýli og enda gönguna á að fylgjast með fuglum á Fýluvogi og Breiðavogi.

Skógræktin. Göngutími 2 – 3 klst.

Skógrækt Djúpavogs er góður kostur sem létt gönguleið. Ágætt er að hefja gönguna við Hótel Framtíð og ganga upp svokallað klif. Þegar upp klifið er komið er ágætt að kasta mæðinni á svokölluðum Hvíldarkletti og njóta útsýnisins. Síðan er gengið inn Borgarland, Borgargarð og eftir gömlu þjóðleiðinni um Olnboga, fram hjá Rakkabergi, sem löngum hefur verið talið vera álfakirkja. Þaðan er haldið áfram framhjá að bænum Aski og inn í skógrækt þar sem göngustígar hafa verið merktir og lagðir trjákurli. Þar er tilvalið að setjast niður með nesti og njóta útiverunnar í skóginum. Skógrækt Djúpavogs er merkt sem áningastaður við þjóðveg og eru þar m.a. bekkir fyrir þá sem vilja nýta sér.
Lónsheiði. Göngutími: 4 – 5 klst. Mesta hæð: 807 m.

Þessi gamli fjallvegur er áhugaverður kostur fyrir göngugarpa. Leiðin er merkt þar sem gamli vegarslóðinn er ennþá til staðar. Gott er að hefja gönguna rétt austan Össurár í Lóni og síðan er gamla vegarslóðanum fylgt, en þegar upp á háheiðina er komið, má hugsa sér að gera krók á leið sína og skreppa upp á Snjótind en þaðan er eitt allra besta útsýni af fjalli í sveitarfélaginu. Þegar haldið er niður af tindinum, er ágætt að halda í suðaustur, niður svokallaða Hestabotna, meðfram Fauská alla leið niður á þjóðveginn austan Þvottárskriða. Einnig er góður kostur að fara til baka og halda áfram niður gamla þjóðveginn að Starmýri í Álftafirði.
Sunnutindur og Þrándarjökull. Uppgöngutími: 4 – 5 klst. Mesta hæð: 1158 m.

Áhugaverð leið þar sem góðar leiðarlýsingar eru til bæði í bókinni Íslensk fjöll og einnig í árbók F.Í. 2003. Kjörið fyrir þá sem vilja komast á jökul og upplifa fjölbreytni í landslagi. Jeppaslóðar liggja inn Geithelladal beggja vegna ár. Best er að hefja fjallgönguna við grónar brekkur innan við ána Sunnu en þar ofan við taka smáklettóttir hjallar við með grónum þverrindum á milli. Gönguland er ágætt og er einfaldast að fylgja Sunnu vestan megin og stefna utanvert í hjallana sem munu heita Álfheiðarhjallar. Þegar komið er nærri rótum Sunnutinds er sveigt með fjallinu upp í fannarhvilft í hlíðinni en þar eru brúnir Þrándarjökuls. Kollur Sunnutinds er hömrum girtur á þrjá vegu og ráðlegt fyrir göngumenn að ganga úr norðaustri eða norðri á fjallið. Þegar komið er á jökul þarf aðeins að beygja skarpt til suðurs og er 1 – 2 km leið fram á höfðann af jöklinum. Þarna er sprungulaust gönguland á snjó eða jökli en um svolitla skriðubrekku að fara á fjallið. Uppi eru melar og grjóturð undir fæti uns komið er á hæsta hjalla. Þrándarjökull skyggir á útsýnið til norðurs en annars er það mikið og fallegt, meðal annars inn til Vatnajökuls og yfir á Snæfell og Vesturöræfi.


Stöng. Uppgöngutími 3 – 4 klst. Mesta hæð: 965 m.

Þessi gönguleið er ætluð þeim sem vilja erfiðar göngur og þá aðallega klifur. Leiðinni er lýst í bók Ara Trausta Guðmundssonar, Íslensk fjöll. Stöngin var fyrst klifin 1987 að því gerst er vitað og leiðin er talin öruggari að vetri eða vori (mannbroddar og ísaxir). Gengið er upp frá þjóðveginum skammt frá Skálaá og upp brekkur vestan ár. Stefnt er austan (hægra megin) við Stöng, nokkuð ofarlega við rætur sjálfs tindsins. Þá er farið inn svokallað Ytra – Stangarskarð og lengi er Bæjartindur á hægri hönd. Þegar komið er að norðausturhluta tindsins er farið upp bratta brekku á ská uns komið er norðan megin í Stöngina. Þar er lítil hvilft eða skarð. Ofan í hana verður að ganga og er þá komið neðanundir hallandi klettabelti. Auðveldast er að leita leiðar heldur til hægri upp á hákollinn gegnt Sletti (norðvesturhorn “kastalans”). Þaðan nær mjókkandi hryggur (fyrir einn mann í einu!) yfir á strýtumyndað klettarið sem er allra hæst.
Hálsar. Göngutími: 3 – 4 klst. Mesta hæð: U.þ.b. 300 m.

Frekar létt fjallganga og mjög gott útsýni yfir firðina tvo Hamars- og Berufjörð og síðast ekki síst Þvottáreyjar og Papey, sérstaklega er útsýnið gott þegar komið er upp á Hálsfjall. Áður en gengið er á Hálsfjall er fyrst hægt að ganga hring um Hálsanna sem liggja sem langur rani út úr Hálsfjalli til suðurs. Hálsar og Hálsarætur eru á náttúruminjaskrá en við Hálsarætur stóð m.a. Hálsþorp og eru þar miklar óraskaðar menningarminjar og þær best varðveittu sem til eru á svæðinu og þótt víðar væri leitað.

Leiðin um Hálsa og Hálsfjall er stikuð og best er að hefja gönguna í svokölluðum Geitadal, skammt innan við skógrækt Djúpavogs.

Comments are closed.