Austurland

Austfirðir eru flestir djúpir og hlíðbrattir dalir og grafnir af jöklum ísaldartíma. Loðmundarfjörður og Seyðisfjörður eru nyrstir þeirra en á milli Héraðsflóa og Seyðisfjarðar er Borgarfjörður-eystri.

 
 

Náttúra og staðhættir á Austurlandi

Inn í norðausturströndina ganga þrír flóar, Bakkaflói, Vopnafjörður og Héraðsflói. Upp frá Héraðsflóa er Fljótsdalshérað sem skiptist neðarlega í Jökuldal og megindalinn Fljótsdal. Þar er stærsti skógur landsins, Hallormsstaðaskógur. Í norðanverðum dalnum er Hengifoss, annar hæsti foss landsins, 128 metrar.

Upp af grösugum dölum Vopnafjarðar taka við víðlendar heiðar og dökkir sandar uns komið er upp í Möðrudal en þar er hæsta byggða ból á Íslandi í 469 metra hæð yfir sjó. Þaðan er fagurt útsýni til allra átta, einkum til suðurs þar sem Herðubreið, Kverkfjöll og Brúarjökull blasa við. Á Austurlandi eru heimkynni hreindýra en þau eru dreifð um allt svæðið frá Vopnafirði til Vatnajökuls.

Austurtröndin er öll vogskorin með mislöngum og breiðum fjörðum en þeirra mestur er Reyðarfjörður. Úti fyrir landinu eru nokkrar eyjar og þeirra stærstar eru Skrúður og Papey.

Nokkrar stærstu jökulár landsins eru á þessu svæði svo sem Lagarfljót og Jökulsá á Dal en hún hefur m.a. myndað hin stórkostlegu Hafrahvammagljúfur. Þau eru einna hrikalegust við Kárahnjúka og þar mælist hamrastálið um 160 metra hátt. Einnig er fjöldi bergvatnsáa í landshlutanum, t.d. Hofsá og Selá í Vopnafirði og Breiðdalsá.

Nafntoguð fjöll eru í fjórðungnum. Þeir sem aka frá Norðurlandi til Austurlands í góðu veðri sjá Dyrfjöll blasa við milli Héraðs og Borgarfjarðar eystri. Þegar sér inn Fljótsdal gnæfir Snæfell þar til himins en það er hæsta fjall landsins utan jökla, 1833 metrar. Í norðanverðum Vatnajökli eru Kverkfjöll sem eru mjög sérstök vegna stórkostlegs samspils elds og íss.

Comments are closed.