Austfirðir

Berufjörður er syðstur Austfjarða en Loðmundarfjörður er þeirra nyrstur. Á milli eru Reyðarfjörður, Mjóifjörður, Fáskrúðsfjörður og Reyðarfjörður sem er þeirra lengstur. Fjallgarðurinn er frá Tertíertímabilinu og að mestu leiti blágrýtisstafli með líparítskriðum og fjöllum inn á milli. Norðan Berufjarðar er Breiðdalur sem er ólíkur hinum fjörðunum vegna þess að þar er vík að sjó í stað fjarðar. Berufjörður og Breiðdalur hafa sameiginlegan fjallgarð en innri hluti hans er forn megineldstöð um 8 milljón ára gömul frá Tertíertímabilinu. Þjóðvegurinn frá Héraði liggur yfir Breiðdalsheiði en þar ná hæstu tindar um 1100 m hæð. Kjarni Breiðdalseldstöðvarinnar er við Dýrhallstind, Rauðafell, Matarhnjúk, Ófærudalsnafir og Berufjarðartind.

Vestan Beruness er Gautavík sem var forn siglinga- og verslunarstaður áður en verslun hófst á Djúpavogi. Við Gautavík verða kaflaskipti í landslanginu en þar er útjaðar eldstöðvarinnar. Í hlíðinni fyrir ofan Gautavík er að finna flikruberg sem myndast við hamfaragos þegar svokölluð helský veltast niður hlíðar eldfjalls og gosgufur og hraunbráð fara saman. Þetta hraunlag er að finna víða í fjöllum Austfjarða. Austfirðir bera vitni afkasta skriðjökla á ísöld en aðalskriðjökullinn hefur stefnt í norður og út frá honum gengið minni jökultungur til austurs sem mótað hafa firðina.

Teigarhorn sem nú er friðlíst er við sunnanverðan Berufjörð en staðurinn er frægur fyrir þokuna sem þar er algeng og reyndar á Austfjörðum og kölluð er Austfjarðarþokan. Þar er líka frægur fundarstaður geislasteina en þar hafa fundist 7 tegundir af 20 á Íslandi en um 50 tegundir eru til í heiminum.

Hamarsfjörður og Álftafjörður eru ein heild landfræðilega en þeir eru fremur lón en firðir í dag. Lónið var til forna mun dýpra og skipgengt en það grynnkar aðallega vegna framburðar og flutnings sandsalla af landi og með sjávarstraumum. Einnig er talið að landris eigi einhvern þátt í því, en jökulfargi ísaldar létti seinna af þessum landshluta en öðrum. Hugsanlega með tímanum mun þetta lón verða að gróskumiklum mýrarflóa. Þvert á firðina liggur langt malarrif um 12 km langt sem kallast Starmýrarfjörður og endar við Melrakkanesós. Eyjan Papey liggur nokkuð utar. Á vorin koma álftir sem hafa átt vetrarsetu erlendis og staldra við á lóni fjarðanna. Hvergi á Íslandi safnast eins margar álftir saman og þarna. Á haustin koma þær aftur og þá heilu fjölskyldurnar af heiða- og fjallvötnunum á leið til vetrarstöðvanna. Inn af Hamarsfirði er Hamarsdalur en út með firðinum norðanverðum er Búlandsnesið. Upp af því rís svo hinn tignarlegi og þríhyrndi Búlandstindur í um 1068 m hæð. Skammt frá tindinum stendur þorpið Djúpivogur sem var mikilvæg verslunarhöfn um 1589 en nú er þar lítll útgerðarbær. Rétt utan við Djúpavog eru gjöful fiskimið á mörkum hins hlýja sjávar Suðurlands og kalda Austfjarðarstraumsins. Þjóðverjar versluðu við Fýluvog á Búlandsnesi í um 80 ára skeið áður en verslun hófst á Djúpavogi.

Í Rauðuskriðu í Hálsfjalli sem er í norðanverðum Hamarsfirði finnst dasít sem er sjaldgæft líparítafbrigði. Þessi bergtegund er straumflögótt og brotnar í hellur og flögur. Í dasíti er kvarts og ólivin sem er mjög sjaldgæft í einni og sömu bergtegundinni. Í dölum Álftafjarðar finnst flikruberg en flikrubergslagið þar er um 100 m þykkt.

Sunnan fjarðanna eru Hvalnes- og Þottárskriður gróðurvana og varasamar. Oft eru þær farartálmi vegna skriðufalla. Bergið í skriðunum og fjöllunum þar inn af er komið úr Álftafjarðareldstöðinni og þarna finnast margar gerðir gosbergs. Eldstöðin er útkulnuð megineldstöð. Í landi Þvottár hefur fundist gull, silfur og fleiri málmar í göngum og æðum Álftafjarðareldstöðvarinnar, en gull er talið berast með kviku frá djúpbergi.

Comments are closed.