Fáskrúðsfjarðargöng

Fáskrúðsfjarðargöng voru formlega opnuð þann 9.september 2005. Sturla Böðvarsson þáverandi samgönguráðherra og Jón Rögnvaldsson vegamálastjóri klipptu á borða við munna jarðganganna Reyðarfjarðarmegin að viðstöddu fjölmenni og voru göngin eftir það opnuð almennri umferð.

Fáskrúðsfjarðargöng eru 5,9 km löng, þar af 5,7 km göng í bergi og 200 m langir vegskálar. Nýir aðkomuvegir eru 1,9 km Reyðarfjarðarmegin og 6,6 km Fáskrúðsfjarðarmegin. Með tilkomu nýja vegarins um jarðgöngin var rutt úr vegi einum erfiðasta og hættulegasta kafla Suðurfjarðavegar, veginum fyrir Vattarnes, og bætir samgöngur á Suðurfjörðum og í landshlutanum öllum verulega. Vegalengdin milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar styttist um 31 km, og milli Suðurfjarða og Mið-Austurlands um 34 km.

Framkvæmdir hófust við göngin vorið 2003.  Heildarkostnaður verksins var um 3,8 milljarðar króna og var aðalverktaki Ístak hf. og E. Phil & Søn AS. Hönnunarkostnaður var 122 millj. kr. fyrir Fáskrúðsfjarðargöng. Eftirlitskostnaður var 211 millj. kr. við Fáskrúðsfjarðargöng.

Verklýsing:

Jarðgöngin eru tvíbreið með útskotum og eru 5,9 km löng, þar af eru 5,7 km sprengd göng. Göngin eru 6,3 m há í miðju og 7,6 m breið í veghæð. Í Reyðarfirði er 40 m langur forskáli og er munni hans í 65 m hæð yfir sjó og lengdarhalli um 1,5%. Í Fáskrúðsfirði er 160 m langur forskáli og er munni hans í um 100 m hæð yfir sjó og lengdarhalli um 1%.
Helstu magntölur:
Vegskálar: 200 m.
Vegur: 8,5 km.
Sprengt grjót: 312.000 m3
Gangaþversnið: 53 m3

 

Comments are closed.