Fljótsdalshérað

Lagarfljót er afkomandi Jökulsár í Fljótsdal sem kemur undan Eyjabakkajökli í norðaustanverðum Vatnajökli og setur mikinn svip á Fljótsdalshéraðið. Í Fljótsdalnum sameinast Jökulsáin Keldná úr Suðurdal og við fljótsbotninn tekur Lagarfljótið við með sínum jökulvatnsblæ. Yfirborð Fljótsins er í um 20 m hæð yfir sjó, en lengdin er um 30 km frá Jökulsárósum að brúnni við kauptúnið Egilsstaði. Breiddin er um 3 km þar sem hún er mest, en Fljótið er dýpst um 111 km.

Lagarfljótið er frægt fyrir þær sakir að talið hefur verið um langa hríð að þar búi hinn stóri Lagarfljótsormur sem sést þó sjaldan. Allt landslag á Fljótsdalshéraði ber vott um landmótunarafl jökla ísaldartímans. Þar sjást jökulsorfnir dalir, hvalbök, malarásar, grópir og jökulrákir með mismunandi stefnu. Á kuldaskeiði hefur jökullinn skriðið út undir Lagarfoss og lokað mynni Fagradals og Jökuldals.

Mikil byggð er við Lagarfljótið enda er þar kaupstaður Austurlands Egilsstaðir, umvafinn skógi. Hallormstaðarskógur er við ofanvert Lagarfljótið en hann er einn stærsti skógur á landinu. Innarlega í skóginum er Atlavíkin sem kennd er við Graut-Atla Þiðrandsson landnámsmann. Í austri er austfjarðarfjallgarðurinn þar sem Skúmhöttur og Kistufell bera hæst eða um 1240 m há. Lengst í suðvestri er Snæfell sem er hæsta fjall Austurlands.

Hallormstaður er í útjaðri Þingmúlaeldstöðvarinnar sem var mjög stór megineldstöð á Tertíertímabilinu. Litskrúðugt líparít hennar sést vel í Skeiðdalsfjöllum. Berggrunnurinn á svæðinu er aðallega basalt, líparít og andesít. Á upphéraði er mikil veðursæld og er sólargangurinn um miðsumar lengri í Hallormstað en hinum megin fljótsins. Skógræktin á Hallormstað er friðuð og þarna er miðstöð skógræktar á landinu.

Comments are closed.