Hálendið

Hálendið norðaustan Vatnajökuls

Fjallið Snæfell sem er um 1833 m á hæð gnæfir yfir jöklum og öræfum hálendisins á þessum slóðum. Vestan fjallsins sjást tindar Kverkfjalla um 1920 m háir og enn vestar sést Bárðarbunga í Vatnajökli um 2000 m há.  Öræfajökull sem er sunnan í Vatnajökli er hins vegar hæstur íslenskra fjalla.

Öræfin í kringum Snæfell eru í um 6-700 m hæð yfir sjó og sunnan við fjallið eru Þjófahnjúkar en norðan við það eru Nálhúshnjúkar og Hafursfell. Snæfell sjálft er eldkeila úr líparíti og móbergi eins og flest fell og fjöll í kring. Þessi eldkeila hefur ekki verið virk á Nútíma. Líparít sést helst austan Eyjabakka en basalt er ríkjandi í sjálfum berggrunni svæðisins.

Snæfell stendur um 30 km austan við hið virka landreks- og eldgosabelti Íslands norðan Vatnajökuls. Við rætur fjallsins eru Eyjabakkar sem er fornt jökullón frá ísaldarlokum sem hefur fyllst af framburði Lagarfljótsins. Í dag er þarna vatna- og votlendissvæði með fjölbreyttu gróður- og dýralífi. Þar er einnig eitt aðalvarpland heiðargæsa og bithagar hreindýra. Eyjabakkajökull er lítill og stuttur og skríður niður fjalladal í Vatnajökli sem nær að fjallinu Grendli en suðvestan hans eru Goðahnjúkar.

Hoffellsjökull skríður niður í Hornafjörð en á milli hans og Eyjabakkajökuls er svokallað Djöflaskarð. Brúarjökull gengur fram á milli Eyjabakkajökuls og Kverkfjalla en framan við hann eru Vesturöræfi frá Jökulsá á Brú og austur að Snæfelli. Brúaröræfin kallast svæðið vestan við Jökulsá á Brú.

Á Vesturöræfum er að mestu gróið land frá Hrafnkelsdal og inn undir Brúarjökul.
Dimmugljúfur (Hafrahvammsgljúfur) eru nokkru norðar á svæðinu en við Ytri-Kárahnjúk eru þau dýpst eða um 160 m. Á ísöld gaus þarna í 18 km langri sprungu og við það mynduðust Kárahnjúkar. Í lok ísaldar var mikið og stórt lón sunnan við hnjúkana og inn að jökli en smám saman gróf áin Jökla sér farveg við Ytri-Kárahnjúk og rauf stífluna. Kringilsárrani sem kemur undan Brúarjökli er friðland vegna jökulmenja þar en er einnig vinsælt beitiland hreindýra.

Brúar- og Vesturöræfin eru griðland og kjörsvæði hreindýra sem halda sig þar í kringum Snæfell frá vori og fram á haust en í slæmu árferði leita þau niður í sveitir Austurlands. Hreindýr voru fyrst flutt til Íslands frá Noregi árið 1771 en síðast til Vopnafjarðar árið 1787. Talið er að núlifandi hreindýrastofn á Austurlandi séu afkomendur þessara vopnfirsku dýra og jafnvel blönduð dýrum úr Þingeyjarsýslu. Fengitími hreindýra er í lok september og í október, en burðartími í mai og fram í júní. Mesta burðarsvæði íslenskra hreindýra er í slakkanum austan og upp af Jöklu frá Kárahnjúkum og inn að jökli.

Norðan Brúaröræfa eru Möðrudalsöræfi, en Jökulsá á Fjöllum skilur þau frá Ódáðarhrauni og Mývatnsöræfum. Þarna eru mestu auðnir á Íslandi.

Comments are closed.