Héraðsmannasögur – gamansögur af Héraði

Fyrir örfáum dögum kom út bókin Héraðsmannasögur í samantekt þeirra Jóns Kristjánssonar, fyrrverandi ráðherra, og Ragnars Inga Aðalsteinssonar frá Vaðbrekku. Hér á eftir verður gripið niður í bókina:

Eiríkur Eiríksson frá Dagverðargerði í Tunguhreppi var í mörg ár bókavörður á Alþingi. Hann þótti passasamur á peninga og ekki græddu tískubúðirnar mikið á honum.

Eitt sinn fór Eiríkur með vini sínum, Sverri Hermannssyni, lengi þingmanni Austurlands og ráðherra um tíma, út á Reykjavíkurflugvöll að ná í móður bókavarðarins.  Þannig háttaði til að móðir hans var að koma í fyrsta skipti á ævinni til Reykjavíkur, því hún þurfti að fara í uppskurð á Landspítalanum við alvarlegum sjúkdómi.

Eiríkur átti ekki bíl og sá Sverrir um aksturinn. Ók hann meðal annars fram hjá Hagkaup og hefur þá á orði við móður vinar síns að þarna fáist allt milli himins og jarðar; matvörur, bækur og kjólar svo eitthvað sé nefnt.

„Kjólar!“ segir segir gamla konan. „Ég hef ekki eignast nýjan kjól í marga áratugi.“

„Hvaða, hvaða,“ segir Sverrir, „við tökum kóssimm á búðina og kaupum kjól eins og skot.“

Um leið baðaði Eiríkur út höndunum í aftursætinu og stundi svo upp:

„Mamma, mamma, eigum við ekki að láta það bíða og sjá til hvernig uppskurðurinn gengur.“

*

Vilhjálmur Hjálmarsson – Villi á Brekku -, alþingismaður fyrir Framsóknarflokkinn og ráðherra, var stakur bindindismaður og veitti aldrei vín í veislum á ráðherraárum sínum, eins og frægt varð.

Vilhjálmur og Þorsteinn Sveinsson, kaupfélagsstjóri á Egilsstöðum, voru góðir kunningjar. Fyrir nokkrum áratugum mættumst þeir á Mjóafjarðarheiði og tóku tal saman. Þorsteinn var á splunkunýjum bíl, ljómandi fallegum. Vilhjálmur áttaði sig ekki almennilega á litnum og hafði orð á því við Þorstein.

„Það er varla von að þú kannist við litinn,“ sagði Þorsteinn. „Bíllinn er nefnilega vínrauður.“

*

Það óhapp varð hjá Flugfélagi Austurlands á sínum tíma að flugmaður hjá  félaginu  var að koma í lágflugi frá Vopnafirði á lítilli flugvél og rak vænginn ofan í Jökulsá í Dal. Sem betur fer endaði þetta vel. Flugmaðurinn, sem var einn í vélinni, slapp lítt meiddur og vélin náðist á þurrt land.
Nokkru eftir þennan atburð var Frissi í Skóghlíð staddur á flugvellinum á Egilsstöðum. Kemur þá viðskiptamaður þar í afgreiðsluna og spyr hvernig útlitið sé með flug til Vopnafjarðar, hvort það sé fært þangað. Frissi tók að sér að afgreiða málið og sagði áður en flugfélagsmenn komust að:  „Það lítur ágætlega út,  það er lítið í Jökulsá í dag.“

*

Gísli Helgason í Skógargerði í Fellum var þekktur maður og höfðingi í sinni sveit. Eitt sinn varð honum misdægurt. Þetta  var á þeim árum þegar lyf var ekki að fá  á Fljótsdalshéraði nær en  á Seyðisfirði. Nágranni var sendur út af örkinni til þess að nálgast lyfin og þótti rétt að nota ferðina og ná í leiðinni í lyf handa veikum hesti í nágrenninu. Ferðin yfir Fjarðarheiði gekk áfallalaust hjá sendimanni og þegar á Seyðisfjörð kom  nálgaðist hann lyfin, duft handa hestinum sem blásið skyldi ofan í hann með tilheyrandi pípu og svo dropa handa bóndanum í Skógargerði. Að þessum erindum loknum gengur hann við í Áfengisverslun ríkisins sem þá var eina verslunin sem seldi áfenga drykki austanlands. Svo var um marga sem versluðu þar að erfitt var að bíða lengi með að prófa varninginn og þróuðust mál þannig að sendimaður var orðinn sæmilega groggaður þegar kom upp á Hérað. Vildi ekki betur til en svo að hann ruglaði meðulunum. Duftið með pípunni fór í Skógargerði en droparnir í hestinn. Var duftinu blásið ofan í Gísla með viðhöfn og svo brá við að hann varð alheill og var við hestaheilsu það sem eftir lifði ævinnar. Dropunum, sem ætlaðir voru Gísla, var hins vegar hellt ofan í hestinn með þeim afleiðingum að hann steindrapst.


Magnús  Hrólfsson á Hallbjarnarstöðum skipti við Kaupfélag Héraðsbúa eins og fleiri og tók virkan þátt í félagsstarfi á þeim vettvangi. Hann tók oft til máls á deildarfundum og aðalfundum félagsins. Eitt sinn ræddi hann gæði þess varnings sem væri á boðstólnum hjá félaginu og var einkum gagnrýninn á síðar nærbuxur sem voru þar til sölu. Lýsti hann endingu þeirra á þann hátt að ef hann færi í aðra skálmina þá væri hún orðin ónýt áður en hann væri komin í hina.

*
Gunnlaugur Haraldsson sagnfræðingur vann á  kjörbíl hjá Kaupfélagi Héraðsbúa þegar hann var ungur maður. Hann var glaðbeittur og ræðinn, ók bílnum um kauptúnið og seldi lífsnauðsynjar. Eitt sinn kom ein af húsmæðrum bæjarins í bílinn til þess að kaupa í hádegismatinn og bað um bjúgu. Gunnlaugur tekur upp ansi myndarlegt bjúga, vegur það í  hendi sér og segir: „Passar þetta?“   Einhverra hluta vegna brást konan reið við og strunsaði út og varð ekki af frekari viðskiptum. Þetta barst til eyrna Jóns Kristjánssonar, sem var þá verslunarstjóri í kaupfélaginu og innti hann kjörbílsstjórann að því hverju þetta sætti. Það stóð ekki á svörunum hjá Gunnlaugi. „Ég átti ekki von á að konan væri með svona saurugan hugsunarhátt,“ sagði hann og málið var látið niður falla.

*

Það voru sagðar skemmtisögur á lokahófunum eftir aðalfundi K.H.B. og það vildi brenna við þegar fór að líða á samkvæmið að efni sagnanna varð dálitið neðan mittis, eins og sagt er.   Eitt sinn varð Óli Sigurðsson á Hauksstöðum á Jökuldal samferða Jóni Kristjánssyni út eftir samkvæmið. Þegar út kemur segir Óli: „Segðu mér Jón, er samvinnuhreyfingin tómt klám?“

Jón setti hljóðan við þessa spurningu.

heradsmannasogur

This entry was posted in Fljótsdalshérað and tagged , . Bookmark the permalink.

Comments are closed.